Upptökur fyrirlestra
Undirritaðir nemendur við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands vilja með erindi þessu lýsa áhyggjum af því að deildin sé að dragast aftur úr hvað varðar nýjungar í kennsluháttum. Í síbreytilegu nútímasamfélagi er það svo að þeir sem stunda háskólanám eru á ýmsum aldri, koma hvaðanæva að af landinu, fjölskyldugerðir þeirra eru jafn mismunandi og nemendurnir eru margir og þetta allt gerir það að verkum að ekki sitja allir við sama borð þegar kemur að því að sækja fyrirlestra í sölum háskólans. Það er alkunna að námslán duga ekki til framfærslu og þurfa því fjölmargir háskólanemar að stunda vinnu meðfram námi. Árlega ganga ýmsar flensur og pestir og margt fleira getur orðið til þess að nemendur sjá sér ekki fært að mæta í allar kennslustundir. Þetta er öllum ljóst og hinar ýmsu deildir við háskóla um allan heim hafa fundið leiðir til að breyta kennsluháttum sínum í takt við tímann. Af einhverjum orsökum hefur félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands ekki komið á móts við breyttar þarfir nemenda nema að litlu leyti. Það hefur borið á því að kennarar mismuna jafnvel nemendum og gefa mikilvægar upplýsingar í kennslustundum, en leggja áherslu á að sömu upplýsingum sé ekki dreift til þeirra sem kannski liggja veikir heima. Einhverjir kennarar eyða dýrmætum tíma í að ræða mætingu við þá nema sem mættir eru í kennslustundir. Aðrir leggja fyrir verkefni sem eru þess eðlis að beinlínis er nauðsynlegt að mæta í alla fyrirlestra, þrátt fyrir að opinberlega sé gefið út að mæting sé frjáls. Þetta fær okkur nemendur til að íhuga fyrir hvern skólinn er í raun. Skólinn er í okkar huga vinnustaður þar sem nemendur og kennarar eiga að vinna saman að því að skila sem hæfustum einstaklingum út í atvinnulífið. Í öðrum háskólum á Íslandi eru ýmsar leiðir nýttar til að miðla upplýsingum og eru upptökur fyrirlestra afar hentugt tæki til þess. Í kennslustofum HÍ er upptökubúnaður og það er okkur mikilvægt að heyra rök kennara deildarinnar fyrir því hvers vegna þessi búnaður er ekki notaður meira en raun ber vitni. Nemendahópurinn samanstendur af þróttmiklu fólki sem hefur það að sameiginlegu markmiði að hjálpa öðru fólki að námi loknu. Það skráir sig enginn í nám með það í huga að sinna því illa. Þessum nemendum ætti að vera treystandi fyrir því að taka afleiðingunum ef náminu er ekki sinnt með fullnægjandi hætti. Kannski er kominn tími til að kennarar sleppi takinu á nemendum og treysti þeim til að bera ábyrgð á eigin námi. Félagsráðgjafarnámið snýst að svo miklu leyti um að finna lausnir, hugsa út fyrir kassann og beita heildarsýn þegar kemur að því að leita lausna á þeim vandamálum sem fólk stendur frammi fyrir. Við viljum fara þess á leit við ykkur, sem hafið lausnirnar innan seilingar, að nemendum sé mætt þar sem þeir eru staddir. Það þarf að ræða opinskátt um það hvort ekki sé kominn tími til að taka upp fyrirlestra á sviðinu og bæta þannig aðgengi nemenda og hugsanlega námsárangur.
Nemendur í félagsráðgjöf Contact the author of the petition
Announcement from the administrator of this websiteWe have closed this petition and we have removed signatories' personal information.European Union's General Data Protection Regulation (GDPR) requires a legitimate reason for storing personal information and that the information be stored for the shortest time possible. |